Tilkynning frá “Garnganga á höfuðborgarsvæðinu”
Kæra handverksfólk og Garngönguvinir Eins og þið hafið eflaust öll tekið eftir hefur covid-19 veiran aftur látið á sér kræla á landinu og þótt það líti vissulega út fyrir að verið sé að ná tökum á henni, fyrr og betur en síðast að þá er á hreinu að óábyrgt er að standa fyrir viðburðum þar sem ekki verði hægt að tryggja 1-2 metra fjarlægð á milli fólks.Síðasta vor og í byrjun sumars vorum við ansi oft spurðar hvort Garngangan myndi fara fram þetta árið og var svarið okkar þá á þá leið að allt benti til þess að við myndum vera akkúrat utan við öll samkomubönnin. En svo fór sem fór.Það er því með miklu lykkjufalli og sorg í hjarta sem við tilkynnum að við teljum ekki að unnt sé að halda áfram að stefna að Garngöngunni þann 12. september, 2020. Henni er því aflýst En þó á sama tíma viljum við líka gleðjast. Við gleðjumst yfir því hversu gríðarlega góð þátttaka var í hönnunarsamkeppninni um Garngönguhúfuna 2020. En alls tóku sjö hönnuðir þátt og var afskaplega gaman að velja húfu þetta árið. Húfur af öllum gerðum sem og með ýmsum nýjungum skiluðu sér til okkar og voru allar ólíkar og fjölbreyttar.En við þurftum að velja eina og var það húfan Garngöngudrottningin sem við völdum. Hönnuður er Þorbjörg Sæmundsdóttir og óskum við henni innilega til hamingju.Hún fær að sjálfsögðu verðlaun frá verslununum og viljum við einnig hvetja til samprjóns meðal handverksfólks og minnum á að nota myllumerkið #Gangönguhúfa2020 sem er líka tilvalið að nota á Instagram og þá er þrælsniðugt að birta mynd af ykkur með húfuna fyrir utan uppáhalds garnverslunina ykkar.Uppskriftina að húfunni má finna á Ravelry og er hún frí þar